Fótbolti

Fékk þrjú tækifæri til að reka hann af velli

Walcott fékk óblíðar móttökur í Kænugarði að mati Wenger
Walcott fékk óblíðar móttökur í Kænugarði að mati Wenger AFP

Arsene Wenger var afar óhress með þá meðferð sem ungstirnið Theo Walcott fékk í jafnteflisleik Arsenal gegn Kiev í Kænugarði í Meistaradeildinni í gærkvöld.

Walcott lagði upp jöfnunarmark William Gallas í blálokin, en knattspyrnustjóranum þótti sem varnarmenn úkraínska liðsins hefðu komist upp með fautaskap á enska landsliðsmanninn.

"Dómarinn hefði geta rekið vinstri bakvörðinn þrisvar af velli, því hann gekk í skrokk á Walcott," sagði Wenger og bætti við að tímagæsla dómarans hefði verið undarleg.

"Ég skil ekki hvernig stóð á því að gefið var merki um tvær mínútur í uppbótartíma, en svo var flautað af eftir aðeins eina mínútu í uppbótartíma."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×