Fótbolti

Busquets hafnaði samingstilboði Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Busquets, til vinstri, fagnar marki með Börsungum.
Busquets, til vinstri, fagnar marki með Börsungum. Nordic Photos / AFP

Sergio Busquets hefur hafnað samningstilboði frá Barcelona en þetta staðfestir umboðsmaður hans í samtali við fjölmiðla.

Busquets er á sínu fyrsta tímabili með aðaalliði Barcelona en hann lék áður með varaliðinu undir núverandi knattspyrnustjóra, Pep Guardiola. Busquets er tvítugur að aldri og hefur átt gott tímabil til þess með Börsungum.

Hann er enn á samningi miðað við vara- og unglingaliðsleikmann og buðu forráðamenn félagsins honum því nýjan samning.

Að sögn umboðsmannsins vill Busquets fá eina milljón evra í árslaun en Börsungar voru tilbúnir að bjóða honum hálfa milljón í fasta greiðslu. Önnur hálf milljón bætist við ef hann spilar í minnst 60 prósent leikjanna á tímabilinu.

Það vildi Busquets ekki sætta sig við og hafnaði hann því tilboðinu. Hann sagði þó í viðtali á dögunum að hann vildi án nokkurs vafa vera áfram í herbúðum Börsunga en Arsenal er sagt fylgjast náið með gangi mála.

Xavi á einnig í viðræðum við Börsunga þessa dagana um nýjan samning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×