Erlent

Frakkar senda herskip til Burma

Óli Tynes skrifar
Franska herskipið Mistral.
Franska herskipið Mistral.

Frakkar ætla að senda herskip með hjálpargögn til Burma þrátt fyrir að stjórnvöld þar í landi vilji ekki hleypa erlendum hjálparsveitum inn í landið.

Frakkar vilja að Sameinuðu þjóðirnar beiti fyrir sig samþykktinni um „skyldu til þess að hjálpa," sem samtökin samþykktu árið 2005.

Í þeirri samþykkt felst að alþjóða samfélaginu beri skylda til þess að hjálpa óbreyttum borgurum í neyðartilfellum, ef ríkisstjórnir viðkomandi landa geta eða vilja það ekki.

Birgðaskip franska flotans, Mistral, er nú að taka um borð hjálpargögn í Chennai á Indlandi og leggur af stað til Burma á morgun. Mistral er 22 þúsund tonna skip. Það hefur fjölmörgum þyrlum á að skipa og stóru sjúkrahúsi.

Mistral er því einstaklega vel fallið til hjálparstarfa af þessu tagi. Það þótti reynast afburðavel í stríðinu í Líbanon árið 2006 þegar það tók þátt í að bjarga um 14000 erlendum ríkisborgurum af átakasvæðinu, og veita margvíslega aðstoð.

Með Mistral eru jafnan franskar freigátur og/eða önnur herskip.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×