Fótbolti

Walcott: Erum á flugi

Elvar Geir Magnússon skrifar
The Walcott fagnar.
The Walcott fagnar.

Arsenal heldur áfram að fara á kostum í Meistaradeildinni og vann liðið 5-2 útisigur á Fenerbahce í kvöld. Theo Walcott skoraði annað mark Arsenal í leiknum.

„Það er erfitt að heimsækja þennan völl, áhorfendur hafa mikil áhrif. En við létum það ekki á okkur fá, unnum okkar vinnu og allir stóðu sig bara frábærlega," sagði Walcott eftir leikinn.

„Við erum komnir á flug. Við spilum frábæran fótbolta og skorum fullt af mörkum úr öllum stöðum. Menn koma af bekknum og skora mörk og það sýnir bara hversu sterkur hópurinn okkar er."

Arsene Wenger er hæstánægður með hraða og tækni sinna manna. Emmanuel Adebayor, Abou Diaby, Alex Song og Aaron Ramsey komust á blað ásamt Walcott.

„Þetta var virkilega góður leikur af okkar hálfleik. Tæknin og hraðinn í mínu liði gerði útslagið," sagði Wenger sem hrósaði Diaby sérstaklega. „Hann hefur verið lengi frá en það var ekki að sjá á hans leik. Hann er ótrúlega fjölhæfur."

Wenger var einnig ánægður með hinn unga Ramsey sem hann keypti frá Cardiff í sumar. „Hann er 17 ára gamall og lofar mjög góðu. Hann er ekki hræddur við neitt og vill alltaf fá boltann. Við erum með ungt lið og menn stóðu sig frábærlega í kvöld," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×