Sport

Haye berst við Klitschko í júní

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Haye fagnar sínum fyrsta sigri í þungavigt.
David Haye fagnar sínum fyrsta sigri í þungavigt. Nordic Photos / Getty Images

David Haye segist hafa gengið frá samkomulagi við Vitali Klitschko um að þeir mætist í hringnum í júní næstkomandi.

Haye sagði að þeir hefðu gengið frá þessu í Þýskalandi um helgina þar sem að bróðir Vitali, Wladimir Klitschko, vann Hasim Rahman og varði þar með IBF- og WBO-titla sína í þungavigt.

Haye vann alla fjóra stóru titlana í cruiserweight-þyngdarflokknum, sem er næsti fyrir neðan þungavigt. Hann ætlar sér einnig að sameina alla fjóra í þungavigtinni en Vitali er handhafi WBC-titilsins.

Fjórði titilinn er sá sem Ring-tímaritið gefur út en sem stendur er enginn titilhafi í þungavigt. Vitali var síðasti handhafi titilsins áður en hann hætti árið 2005.

Vitali sneri svo aftur í hringinn og endurheimti WBC-titilinn sinn með því að sigra Samuel Peter í október.

„Við náðum samkomulagi og nú á bara eftir að ganga frá pappírsvinnunni," sagði Haye í samtali við breska fjölmiðla. Hann á að baki einn bardaga í þungavigt en hann vann þá Monte Barrett.

Vitali hefur aðeins tapað tveimur bardögum á sínum ferli, síðast fyrir Lennox Lewis í Los Angeles árið 2005.

Haye segist ekki í vafa um að bardaginn þeirra verði sá stærsti á næsta ári. „Þetta verður stærsti bardaginn í sögu hnefaleikanna síðan að Lennox Lewis og Mike Tyson mættust."



Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×