Fótbolti

Spáð að Eiður byrji á laugardag

Elvar Geir Magnússon skrifar
Eiður Smári í baráttunni.
Eiður Smári í baráttunni.

Einn stærsti leikur ársins í Evrópufótboltanum fer fram á laugardagskvöld. Það er hinn svokallaði „El Classico" þar sem Barcelona og Real Madrid eigast við. Góðar líkur eru á því að Eiður Smári Guðjohnsen verði í byrjunarliði Barcelona í leiknum.

Vefsíðan sport.es telur að Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, sé þegar búinn að ákveða byrjunarlið sitt í leiknum. Hann mun að öllum líkindum gera ellefu breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Shaktar Donetsk í Meistaradeildinni síðasta þriðjudag.

Börsungar höfðu þegar tryggt sér sigur í riðlinum og gat Guardiola því leyft sér að hvíla menn. Eiður kom inn sem varamaður þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum og lagði upp annað mark Barcelona með stórglæsilegri sendingu.

Sérfræðingur Sport.es telur að eina óvissan um byrjunarlið Barcelona gegn Real Madrid sé hver verði við hlið Xavi á miðjunni. Hann telur þó langlíklegast að það komi í hlut Eiðs Smára sem byrjaði á bekknum gegn Shaktar.

Það er því flest sem bendir til þess að þetta verið byrjunarlið Barcelona í leiknum: Valdés, Alves, Puyol, Márquez, Abidal, Touré Yaya, Xavi, Eiður Smári, Messi, Henry og Eto'o.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×