Sport

Guðmundur fer ekki á Ólympíuleikana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Stephensen, borðtenniskappi.
Guðmundur Stephensen, borðtenniskappi.
Guðmundur Stephensen er úr leik á lokaúrtökumóti Alþjóðlega borðtennissambandsins sem fram fer í Ungverjalandi.

Guðmundur byrjaði á því að keppa í þriggja manna riðli þar sem tveir keppendur komust áfram. Hann tapaði fyrst fyrir Constantin Cioti frá Rúmeníu, 4-2, en vann svo Qiang Shen, 4-0, og varð því í öðru sæti í sínum riðli.

Riðlarnir voru alls sextán og þeir sextán sem urðu í fyrsta sæti í sínum riðli komust beint í þriðju umferð.

Keppendurnir sextán sem urðu í öðru sæti í sínum riðli kepptu í annarri umferð. Þaðan komust átta keppendur í þriðju umferð auk þess sem sextán bestu keppendur mótsins þurftu ekki að taka þátt í fyrstu tveimur umferðunum.

Guðmundur tapaði svo á laugardaginn fyrir Phuchang Sanguansin frá Tælandi, 4-2, í annarri umferð og féll þar með úr leik.

Sanguansin vann fyrstu þrjár loturnar í viðureigninni - 11-4, 11-9 og 11-4, áður en Guðmundur svaraði með því að sigra tvær lotur í röð - 11-8 og 11-7. Sanguansin tryggði sér hins vegar sigurinn í sjöttu lotunni, 11-9.

Eftir að Guðmundur féll úr leik voru 40 keppendur eftir sem berjast nú um þau sæti sem eru laus á Ólympíuleikunum. Ekki er endanlega ljós hversu margir keppendur á mótinu komast á Ólympíuleikana en ljóst er að Guðmundur á enga möguleika á því.

Þrír keppendur frá Norðurlöndunum hafa þegar tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum. Þeir eru Jens Lundqvist og Jörgen Persson frá Svíþjóð auk Michael Maze frá Danmörku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×