Fótbolti

Real Madrid óstöðvandi?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sergio Ramos fagnar marki sínu.
Sergio Ramos fagnar marki sínu.

Ramon Calderon, forseti Real Madrid, er fullur bjartsýni eftir að liðið hampaði Ofurbikarnum á Spáni í gær. Real Madrid vann 4-2 sigur en þetta var síðari viðureignin gegn Valencia.

Á ótrúlegum lokakafla leiksins tryggði Real Madrid sér sigurinn. Liðið skoraði þrjú mörk á síðasta stundarfjórðungi leiksins áður en Valencia minnkaði muninn.

Allt stefndi í sigur Valencia þegar liðið náði 1-0 forystu og Rafael van der Vaart, miðjumaður Real Madrid, fékk rauða spjaldið. Ruud van Nistelrooy jafnaði í 1-1 úr vítaspyrnu en fékk síðan einnig brottvísun.

Þrátt fyrir að hafa níu menn á vellinum náði Real Madrid forystu þegar Sergio Ramos skoraði. Ruben da la Red og Gonzalo Higuain bættu síðan við mörkum og Real Madrid vann samtals 6-5 sigur.

„Ég er ótrúlega ánægður með að við tókum þennan bikar. Að skora þrjú mörk með níu leikmenn á vellinum er sjaldséð. Sigurviljinn og andinn var einfaldlega meiri hjá okkur og ég er ótrúlega stoltur," sagði Calderon.

„Við erum með fullt af leikmönnum sem eru fæddir sigurvegarar. Nú þurfum við bara að halda uppteknum hætti og stefna á hina þrjá bikarana sem við berjumst um á þessu tímabili. Ég hef á tilfinningunni að þetta lið sé ekki hægt að stöðva."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×