Skoðun

„Rökin“ gegn Droplaugarstöðum

Ögmundur Jónasson skrifar
Góðir lesendur. Hafið þið heyrt skýringar Guðlaugs Þórs, heilbrigðisráðherra og einkavæðingarhópsins sem hann starfar fyrir, á því hvers vegna þurfi að bjóða út rekstur dvalarheimilis fyrir aldraða að Droplaugarstöðum?

Tvennt hefur verið nefnt. Í fyrsta lagi er okkur sagt að Droplaugarstaðir hafi verið reknir með halla. Þann halla verði að rétta af og að þar sé einkavæðing allra meina bót. Í öðru lagi er bent á kosti samlegðarinnar. Með því að reka Droplaugarstaði í samkrulli við stærri aðila, eins og hlutafélagið Sóltún, megi ná kostnaði niður.

En bíðum við. Þegar Sóltún var sett á laggirnar bauðst sjálfseignarstofnunin Hrafnista til þess að taka verkið að sér með sömu rökum. Kvaðst geta nýtt samlegðaráhrif stærðarinnar, meðal annars í rekstri mötuneytis og þvotta. Nei, á það mátti fjármálaráðuneytið, sem þá stýrði einkavæðingunni ekki heyra minnst. Sóltún átti að verða sjálfstæð rekstrareining, var sagt, og fráleitt að skekkja markaðsstöðuna með einhverju samlegðarfyrirkomulagi!

Þá passaði að tala á þennan veg. Nú passar að segja hið gagnstæða.

Og svo er það hallinn! Hvers vegna halda menn að það sé halli á rekstri Droplaugarstaða? Vegna þess að þar sé sólundað fé; laun starfsfólksins séu of há? Vegna þess að Droplaugarstaðir sé illa rekin stofnun? Ekkert af þessu stenst skoðun.

Ástæðan fyrri „hallanum" er sú að stofnunin fær ekki nægilegt fé til að reksturinn gangi upp. Launakostnaður stofnana á borð við Droplaugarstaði er á bilinu 70 - 80% af rekstrarkostnaði. Þetta er hlutfallið enda þótt laun starfsfólksins séu lág. Alltof lág. Ætlast einkavæðingarfólkið í heilbrigðisráðuneytinu til þess að þessi laun verði lækkuð? Er ætlunin að fækka starfsfólkinu? Auka enn álagið á þá sem eftir eru? Eða eru þetta bara óábyrgir gasprarar sem leita allra ráða til að réttlæta einkavinavæðingu heilbrigðiskerfisins? Einkavæðingu í þágu sín og sinna. Ég hallast að því.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×