Erlent

Pabbi fer í stríð

Óli Tynes skrifar
Kathy Fendelman með Samönthu og Benjamín.
Kathy Fendelman með Samönthu og Benjamín. MYND/AP

Enginn er hrifinn af stríðinu í Írak. Ekki heldur Kathy Fendelman sem huggar hér níu ára gamla tvíburana sína Samönthu og Benjamín.

Þau eru að kveðja heimilisföðurinn Barton Fendelman liðþjálfa, sem er á leið til Íraks.

Meðal þess sem gerðist í Írak síðasta sólarhringinn er þetta:

Bandarískir hermenn felldu sex vígamenn í Bagdad, þegar þeir svöruðu eldflaugaárás í höfuððborginni.

Sprengja í strætisvagni í Bagdad drap tvo farþega og særði sex til viðbótar.

Tveir lögreglumenn biðu bana og einn særðist þegar bíll þeirra ók yfir vegsprengju við bæinn Yusufia, um 15 kílómetra suður af Bagdad.

Tvö lík með skotsár fundust í Mahaweel um 75 kílómetra suður af Bagdad.

Fimm manns fórust og níu særðust í sprengjutilræði á Tayran torgi í Bagdad.

Tíu manns, þar af sex börn særðust í átökum í Sadr City.

Tvö lík með skotsár og merki um pyntingar fundust norðaustur af Kirkuk.

Byssumenn réðust á hús og særðu sautján manns, þar af fimm konur, í Shirquat um 300 kílómetra norður af Bagdad.

Lík af manni með skotsár og merki um pyntingar fannst í bænum Rashad, suður af Kirkuk.

Bæjarfulltrúi í Falluja og fimm fjölskyldumeðlimir særðust þegar sprengja sprakk í bíl þeirra.

Tvö lík fundust í mismunandi bæjarhlutum í Bagdad.

Byssumenn í bíl skutu lögregluþjón til bana í miðborg Basra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×