Fótbolti

Alves dýrasti bakvörður heims

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daniel Alves er genginn til liðs við Barcelona.
Daniel Alves er genginn til liðs við Barcelona. Nordic Photos / AFP

Barcelona hefur gengið frá kaupum á bakverðinum Daniel Alves frá Sevilla sem kostaði félagið 23,5 milljónir punda eða tæpa 3,7 milljarða króna.

Samkvæmt því er Alves orðinn að dýrasta hægra bakverði heims en hann er fjórði leikmaðurinn sem kemur til Barcelona síðan að Pep Guardiola tók við knattspyrnustjórn liðsins. Fyrir voru þeir Gerard Pique, Martin Caceres og Seydou Keita komnir til félagsins.

„Barcelona vill ná aftur þeim góða árangri sem félagið náði fyrir tveimur árum og það er mikill heiður að þeir stóli á mig til þess," sagði Alves.

Guardiola vonast til að Alves skapi stórhættulega blöndu á hægri vængnum með Lionel Messi.

„Þettu eru þeir tveir bestu á hægri vallarhelmingnum og ef þeir spila vel verðum við með besta hægri vænginn," sagði Guardiola.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×