Sport

Sigur í tvenndarleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Jóhannesson, Íslandsmeistari í einliðaleik karla.
Helgi Jóhannesson, Íslandsmeistari í einliðaleik karla. Mynd/E. Ól.
Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson unnu fyrstu viðureignina í úrslitaleik Íslands og Finnlands um áframhaldandi veru í A-deild Evrópumótsins í badminton.

Árni Þór Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, sagði í samtali við Vísi í dag að sigur í tvenndarleiknum væri algert lykilatriði þar sem hann reiknaði ekki með því að Ísland ynni sína leiki í einliðaleik karla og kvenna.

Möguleikar Íslands fælustu í því að vinna tvenndarleikinn og svo tvíliðaleikina og samkvæmt því var sigur Rögnu og Helga afar mikilvægur.

Ragna og Helgi komust í 18-15 í fyrstu lotunni en þau Ilkka Nyqvist og Elina Vaisanen jöfnuðu metin í 19-19. Ragna og Helgi unnu lotuna þó 21-19.

Í seinni lotunni voru Finnarnir með frumkvæðið fyrst um sinn og komust í 9-7 forystu. Íslenska liðið neitaði þó að gefa eftir og náðu að jafna metin í stöðunni 11-11. Eftir það tóku Ragna og Helgi öll völd á vellinum og unnu góðan sigur, 21-13, og þar með 2-0.

Nú á eftir fara fram einliðaleikir þar sem Bjarki Stefánsson mætir Ville Lang og Tinna Helgadóttir mætir Anu Nieminen.

Í tvíliðaleik karla mæta þeir Magnús Helgason og Helgi þeim Nyqvist og Lang. Ef staðan í viðureigninni verður jöfn eftir það ráðast úrslitin í tvíliðaleik kvenna. Ragna og Sara Jónsdóttir mæta þá Saara Hynninen og Vaisanen.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×