Sport

Sigur á Eistum og Ísland heldur í vonina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslenska landsliðið í badminton.
Íslenska landsliðið í badminton.

Íslenska landsliðið í badminton á enn möguleika á að halda sæti sínu í A-deild Evrópumótsins eftir sigur á Eistum í morgun, 3-2.

Viðureignin var afar jöfn og spennandi og réðust ekki fyrr en í oddalotunni í síðustu viðureigninnni, tvíliðaleik kvenna.

Þar kepptu Ragna Ingólfsdóttir og Tinna Helgadóttir fyrir Íslands hönd gegn þeim Kati Tolmoff og Helen Reino. Ísland vann fyrstu lotuna, 21-14, en tapaði þeirri næstu naumlega, 22-20.

Þær eistnesku náðu frumkvæðinu í oddalotunni og komust í 7-4 forystu en Ísland náði að jafna, 8-8.

Þær eistnesku héldu frumkvæðinu áfram og komust í 14-12 en þá létu þær íslensku til sín taka. Þær breyttu stöðunni fyrst í 16-14 og svo í 18-15.

Ragna og Tinna komust í 20-16 og unnu á endanum glæsilegan sigur, 21-18.

Ísland mætir Finnlandi í hreinum úrslitaleik um hvort liðið heldur sæti sínu í A-deildinni klukkan 16.00 í dag. Finnar unnu Íra örugglega í morgun, 3-0.

Helgi Jóhannsesson og Ragna sigruðu í tvenndarleik í fyrstu viðureigninni, 21-19 og 21-11.

Ísland tapaði hins vegar báðum einliðaleikjum sínum. Sara Jónsdóttir tapaði fyrir Tolomoff, 2-1, og Raul Must sigraði Atla Jóhannesson, 2-0.

Þá var komið að tvíliðaleik karla þar sem Helgi og Magnús Ingi Helgason unnu góðan sigur, 21-17 og 21-12. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×