Körfubolti

Hraðalestin heyrir sögunni til

Shaquille O´Neal, Steve Nash og Amare Stoudemire
Shaquille O´Neal, Steve Nash og Amare Stoudemire NordicPhotos/GettyImages

Nýr þjálfari Phoenix Suns, Terry Porter, virðist ætla að breyta mikið um áherslur hjá liðinu frá því sem var undir forvera hans Mike D´Antoni.

Undir stjórn D´Antoni var lið Suns gjarnan nefnt Phoenix-hraðalestin, en nú er D´Antoni tekinn við New York Knicks og nýr þjálfari með ólíkar áherslur kominn í bílstjórasætið í eyðimörkinni.

Phoenix-liðið hefur verið eitt það skemmtilegasta á að horfa í deildinni undanfarin ár þar sem það spilaði undir kjörorðinu "sjö sekúndur eða minna" - en það var tilvísun í speki þjálfarans sem vildi leita að fyrsta mögulega færi á að skora í sókninni og keyra upp hraðann.

Ef marka má skrif Arizona Republic hefur Porter aðrar hugmyndir um hvernig best megi nýta þann sterka leikmannahóp sem hann hefur undir höndum.

Steve Nash, Shaquille O´Neal og Grant Hill eru þannig allir á síðustu metrunum á ferlinum og því mætti ætla að þeir hefðu gott af því að spila hægari og kerfisbundnari sóknarleik.

Aðeins tíminn getur þó leitt það í ljós, en væntingarnar til Phoenix liðsins hafa heldur dalað eftir að það tapaði 4-1 fyrir San Antonio í undanúrslitum Vesturdeildarinnar í vor.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×