Enski boltinn

Casillas sagður hafa hafnað risatilboði Man City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Iker Casillas í leik með spænska landsliðinu.
Iker Casillas í leik með spænska landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Spænskir fjölmiðlar halda því fram að Manchester City hafi sett sig í samband við Iker Casillas, markvörð Real Madrid, með það fyrir augum að fá hann til liðs við félagið.

Hinir vellauðugu eigendur City munu hafa verið reiðubúnir að borga þá lágmarksupphæð sem þarf til að losa Casillas undan samningi sínum við Real, alls 128 milljónir punda eða tæpir 28 milljarðar króna.

Sömu fjölmiðlar halda því fram að Casillas hafi verið boðnar ellefu milljónir punda í árstekjur eða um 230 þúsund pund á viku.

Casillas mun hins vegar hafa hafnað þessu umsvifalaust og því ekki útlit fyrir annað en að hann verði áfram í herbúðum Real Madrid.

Hæsta upphæð sem hefur verið greidd fyrir knattspyrnumann eru þær tæpu 50 milljónir punda sem Real Madrid greiddi Juventus fyrir Zinedine Zidane árið 2001.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×