Körfubolti

NBA í nótt: Flautukarfa í framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brandon Roy fagnar sigurkörfu sinni í nótt.
Brandon Roy fagnar sigurkörfu sinni í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Tveir leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Framlengja þurfti leik Portland og Houston þar sem Brandon Roy tryggði fyrrnefnda liðinu sigur með þriggja stiga körfu um leið og leiktíminn rann út.

Ekki nema 0,8 sekúndur voru til leiksloka er Portland átti innkast á vallarhelmingi Houston. Roy fékk boltann og tókst að klára skotið af miklu öryggi. Lokatölur voru 101-99.

Roy var þá nýbúinn að koma Portland í tveggja stiga forystu, 98-96, með annarri þriggja stiga körfu en Yao Ming náði að koma Houston yfir með tveggja stiga körfu auk þess sem hann fiskaði brot á Roy.

„Ég var svo svekktur með sjálfan mig að ég sagði Steve (Blake) að leyfa mér að bæta fyrir mistökin," sagði Roy eftir leik.

LaMarcus Aldridge skoraði 27 stig fyrir Portland, Roy sautján og Rudy Fernandez fimmtán.

Hjá Houston var Tracy McGrady stigahæstur með 30 stig en þeir Luis Scola og Aaron Brooks skoruðu fjórtán hvor.

Þá vann Orlando sigur á Philadelphia á heimavelli, 98-88, þó svo að Dwight Howard hafi lítið getað beitt sér í gær vegna villuvandræða. Jameer Nelson skoraði sextán stig og gaf níu stoðsendingar en þeir Hedo Turkoglu og Rashard Lewis skoruðu 20 stig hvor fyrir Orlando.

Thaddeus Young var stigahæstur hjá Philadelphia með nítján stig, Andre Iguodala var með sextán og Andre Miller fimmtán.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×