Viðskipti erlent

Svíar hækka stýrivexti

Stefan Ingves, seðlabankastjóri Svíþjóðar.
Stefan Ingves, seðlabankastjóri Svíþjóðar. Mynd/AFP
Sænski seðlabankinn ákvað í dag að hækka stýrivexti um 25 punkta og verða þeir eftirleiðis 4,75 prósent. Bankastjórnin sagði í morgun að breytingar verði ekki gerðar á vöxtunum út árið vegna aðstæðna í efnahagslífinu.

„Verðbólgan hefur aukist í Svíþjóð og því er vaxtahækkunin nauðsynleg til að draga úr henni," sagði í vaxtaákvörðun bankans. Á sama tíma kom fram að hár rekstrarkostnaður hafi dregið úr framleiðni og hafi það komið niður á hagvexti í landinu, líkt og Associated Press-fréttastofan bendir á.

Verðbólga mældist 4,4 prósent í Svíþjóð í júlí og hafa tölur sem þessar ekki sést síðan um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Verðbólgumarkmið sænska seðlabankans er tvö prósent.

Til samanburðar mældist verðbólgan 14,5 prósent hér í síðasta mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×