Körfubolti

Utah og Cleveland leiða 2-0

Elvar Geir Magnússon skrifar
Paul Millsap, leikmaður Utah Jazz, fer á milli þeirra Dikembe Mutombo og Shane Battier hjá Houston Rockets.
Paul Millsap, leikmaður Utah Jazz, fer á milli þeirra Dikembe Mutombo og Shane Battier hjá Houston Rockets.

Tveir leikir voru í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt og eftir þá leiki eru það Cleveland Cavaliers og Utah Jazz sem eru komin í 2-0 í sínum einvígjum.

Utah vann Houston á útivelli 90-84 og hefur því unnið báða leikina á útivelli. Útlitið er ekki bjart fyrir Houston sem þarf nú að mæta til Utah á ansi sterkan heimavöll.

Deron Williams var með 22 stig fyrir Utah og Mehmet Okur með 16. Stigahæstur hjá Houston var Tracy McGrady með 23 stig og Bobby Jackson var með 18.

Cleveland Cavaliers hefur nú unnið tvo heimaleiki gegn Washington. Liðið vann stórsigur í nótt með 30 stiga mun, 116-86. LeBron James átti frábæran leik og skoraði 30 stig fyrir Cleveland en Zydrunas Ilgauskas var með 16.

Hjá liði Washington voru þeir Caron Butler, Darius Songaila og DeShawn Stevenson með 12 stig hver.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×