Fótbolti

Yaya Toure ánægður hjá Barcelona

Elvar Geir Magnússon skrifar
Yaya Toure í baráttunni.
Yaya Toure í baráttunni.

Miðjumaðurinn Yaya Toure viðurkennir að hafa rætt við Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal, í sumar. Hann segist þó vera mjög sáttur í herbúðum Barcelona.

Yaya Toure hefur verið orðaður við Arsenal en enska liðið hefur víst mikinn áhuga á að fá hann. Eldri bróðir hans, Kolo Toure, leikur með Arsenal eins og kunnugt er.

„Ég hef lesið það í blöðunum að Arsenal hafi áhuga á mér og að ég hafi neitað samningi frá þeim í sumar. Það er ekki alveg satt. Ég talaði við Arsene Wenger í sumar en hef ekkert heyrt í honum síðustu mánuði," sagði Toure.

Sögur hafa verið í gangi um að Wenger ætli að reyna að kaupa Toure í janúar en þessi 25 ára leikmaður hyggst ekki yfirgefa topplið spænsku deildarinnar.

„Mér líður vel hjá þessu liði, Barcelona er frábært félag. Ég mun verða hér áfram því ég er mjög ánægður með hópinn og við spilum frábæran fótbolta. Á hverju ári kaupir félagið hæfileikaríka leikmenn og það er mikilvægt því metnaðurinn hér er mikill," sagði Toure.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×