Innlent

Eitt reyklaust ár að baki

Eitt ár er nú liðið síðan slökkt var í síðustu löglegu sígarettunum á kaffihúsum, veitinga- og skemmtistöðum landsins. Reykingabannið á ársafmæli í dag.

Margir íbúar í miðbænum kvörtuðu fljótlega undan því að sóðaskapur og hávaði næturlífsins hefði aukist eftir að bannið tók gildi.

Góðglaðir söfnuðust þá saman fyrir utan skemmtistaðina til að reykja í stað þess að halda sig innandyra.

Ekki varð bannið þó til að draga úr reykingum, þvert á móti, sala á sígarettum jókst um 6,3% fyrstu tvo mánuðina.

Gallup könnun um haustið sýndi þó að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var ánægður með bannið, eða 79%.

Margir furðuðu sig á því hversu vel gekk að innleiða bannið en þó kom að því - þegar vetrarhörkurnar voru hvað mestar - að nokkrir veitingastaðir tóku sig saman og gerðu uppreisn eina helgi.

Staðirnir leyfðu reykingar þá helgina þar sem staðarhaldarar töldu að vafi léki á að nokkur viðurlög væru við því að brjóta bannið.

Heilbrigðisráðherra kom því á framfæri að hægt væri að svipta veitingahús starfsleyfi ef bannið væri brotið ítrekað. Voru þá retturnar slíðraðar á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×