Erlent

Sýrland og Ísrael í óvæntum friðarviðræðum

Óli Tynes skrifar
Ísraelskir hermenn á Golan hæðum. Sýrlendingar vilja fá hæðirnar aftur.
Ísraelskir hermenn á Golan hæðum. Sýrlendingar vilja fá hæðirnar aftur.

Sýrlendingar og Ísraelar eiga í óbeinum friðarviðræðum í Tyrklandi. Formlega séð eiga löndin tvö í stríði en það ríkir þó vopnahlé sem staðið hefur síðan 1974.

Sýrland og Ísrael deila meðal annars um yfirráð yfir Golan hæðum, sem Ísraelar hertóku árið 1967. Tyrkland er eina múslimaríkið sem Ísrael á gott samband við. Löndin tvö hafa með sér samvinnu á mörgum sviðum, jafnvel hernaðarlega samvinnu.

Fréttir um þessar viðræður koma mjög á óvart því Sýrlendingar hafa lengi verið meðal bitrustu óvina Ísraels.

Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess að koma á sáttum, en án árangurs. Sýrlendingar styðja meðal annars Hizbolla samtökin, sem löngum hafa verið Ísrael erfiður ljár í þúfu.

Ísraelar og Sýrlendingar sitja ekki saman við borð í Tyrklandi, heldur bera tyrkneskir samningamenn orð á milli þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×