Körfubolti

Lakers gengur betur þegar Bryant tekur færri skot

Lakers tapaði báðum leikjum sínum gegn Boston í deildarkeppninni í vetur, en báðir leikir fóru fram fyrir áramót
Lakers tapaði báðum leikjum sínum gegn Boston í deildarkeppninni í vetur, en báðir leikir fóru fram fyrir áramót NordcPhotos/GettyImages

Kobe Bryant hjá LA Lakers verður að hafa hemil á sér í skotunum í úrslitaeinvíginu á móti Boston Celtics ef marka má tölfræðina.

Þetta kemur fram í ítarlegri töfræðiúttekt ESPN sem gerð var fyrir úrslitaeinvígið, en þar kemur fram að Lakers-liðið er mun líklegra til að vinna leiki ef Bryant tekur undir 20 skot í leik.

Bryant er einn mesti skorari deildarinnar undanfarin ár og margir telja að vonir Lakers-liðsins í úrslitunum hangi á því hversu vel Bryant nær sér á strik gegn sterkri vörn Boston. Það þarf þó ekki endilega að vera ef tekið er mið af tölfræðiúttekt ESPN.

Þannig leiddi könnunin í ljós að í þeim leikjum sem Bryant tók 20 skot eða meira í deildarkeppninni, vann Lakers-liðið sigur í 59% leikja sinna. Vann 26 og tapaði 18.

Þegar hann tók hinsvegar 19 skot eða færri, vann Lakers-liðið tæplega 82% leikja sinna. Vann sigur í 31 leik og tapaði aðeins 7.

Þegar tekið er mið af úrslitakeppninni eru niðurstöðurnar svipaðar - ef ekki enn meira afgerandi.

Þegar Bryant hefur tekið 20 skot eða meira í úrslitakeppninni hefur Lakers unnið sex leiki og tapað þremur, en þegar hann tekur 19 skot eða færri - hefur Lakers unnið alla sex leiki sína og ekki tapað.

Samkvæmt þessu er Lakers liðið 38% líklegra til að vinna leiki ef Bryant tekur ekki of mörg skot í leikjum liðsins. Sannarlega áhugaverð tölfræði.

Úrslitaeinvígi Boston og Los Angeles hefst á fimmtudagskvöldið klukkan eitt eftir miðnætti og verða allir leikir í einvíginu sýndir beint á Stöð 2 Sport.

Leiktímar í úrslitunum:

fim. 5. júní, Boston-Lakers

Sun. 8. júní, Boston-Lakers

þri. 10. júní, Lakers-Boston

fim. 12. júní, Lakers-Boston

sun. 15. júní, Lakers-Boston*

þri. 17. júní, Boston-Lakers*

fim. 19. júní, Boston-Lakers*

*- ef með þarf

Allir leikir hefjast klukkan 01:00

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×