Erlent

Lík í frystikistunni

Guðjón Helgason skrifar

Þýska lögreglan handtók í morgun konu eftir að lík þriggja kornabarna fundust í frystikistu á heimili hennar.

Konan og maður hennar voru á ferðalagi í Svartaskógi um helgina. Börn þeirra sem eru á unglingsaldri voru heima. Að sögn lögreglu fundu þau eitt líkið þegar þau voru að leita að mat í frystikistunni í kjallara fjölskylduheimilisins í Wenden austur af Köln. Konan gaf sig síðan fram við lögreglu sem fann tvö lík til viðbótar í kistunni.

Börnin voru ekki andvana fædd. Lögregla hefur ekkert gefið upp um dánarorsök og ekki er vitað hvað börnin voru gömul þegar þau dóu.

Konan hefur viðurkennt að hafa komið líkunum fyrir í frystikistunni. Börnin voru vafin í plast og dagblöð. Eitt blaðanna var frá 1988 sem bendir til þess að líkin hafi verið geymd í frystikistunni í um tvo áratugi.

Nokkur mál svipuð þessu hafa komið upp í Þýskalandi síðustu misseri. Fyrir skömmu var kona í austurhluta Þýskalands dæmd í 15 ára fangelsi fyrir að hafa myrt 8 börn sín og grafið í garðinum sínum.

Heilsugæslustöðvar á nokkrum stöðum í landinu hafa sumar komið fyrir sérhönnuðum lúgum þar sem örvilnaðar mæður geta skilið börn sín eftir. Þannig er talið að bjarga megi lífi einhverra barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×