Körfubolti

James og Paul bestir í nóvember

James og Paul eru líklega bestu leikmenn heimsins hvor í sinni stöðu
James og Paul eru líklega bestu leikmenn heimsins hvor í sinni stöðu NordicPhotos/GettyImages

LeBron James hjá Cleveland Cavaliers og Chris Paul leikmaður New Orleans Hornets voru útnefndir leikmenn mánaðarins í NBA deildinni.

LeBron James fór fyrir liði Cleveland sem vann 13 af 15 leikjum sínum í nóvember og reyndar gekk liðinu svo vel að James hefur þurft að spila mun færri mínútur en oft áður.

James skilaði 28,6 stigum að meðaltali og hitti úr 49,7% skota sinna. Hann hirti auk þess 7,1 frákast og gaf 6,2 stoðsendingar, en þótt ótrúlegt megi virðast, eru þetta hóflegar tölur fyrir kappann.

Þetta er í áttunda skipti sem James er valinn leikmaður mánaðarins í Austurdeildinni á stuttum ferli sínum í deildinni og voru þessir þrettán sigurleikir í mánuðinum jöfnun á félagsmeti.

Tvær þrennur á þremur dögum hjá Chris Paul
James og Paul fagna sigri á ÓL í sumarNordicPhotos/GettyImages

Chris Paul hefur haldið áfram þar sem frá var horfið á síðustu leiktíð þegar hann var einn allra besti leikmaður deildarinnar.

Þessi ungi leikstjórnandi skoraði 20,3 stig, gaf 11,6 stoðsendingar, hirti 5,7 fráköst og stal 2,8 boltum að meðaltali í leik og náði tveimur þreföldum tvennum á þremur dögum.

Hann var skoraði 29 stig, gaf 16 stoðsendingar og hirti 10 fráköst í sigri á Oklahoma þann 22. nóvember og tveimur dögum síðar var hann með 14 stig, 17 stoðsendingar og 10 fráköst gegn LA Clippers.

Þetta var í þriðja skipti sem Paul hefur verið útnefndur leikmaður mánaðarins í Vesturdeildinni en hann fór fyrir liði New Orleans Hornets þegar það vann 9 af 15 leikjum sínum í mánuðinum.

Rivers og Jackson bestu þjálfararnir

Þá voru þeir Doc Rivers hjá Boston og Phil Jackson hjá LA Lakers kjörnir þjálfarar Austur- og Vesturdeildarinnar.

Rivers stýrði meisturum Boston til 16 sigra í 18 leikjum í október og nóvember og undir stjórn Jackson hefur Lakers liðið byrjað mjög vel og unnið 14 af 15 fyrstu leikjum sínum.

Af þessu má sjá að liðin sem léku til úrslita í deildinni síðasta sumar eru ekkert að slaka á klónni og virðast staðráðin í að fara alla leið næsta sumar.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×