Körfubolti

Pierce neitar að fara í myndatöku

Paul Pierce var hetja Boston í gærkvöldi þegar lið hans vann fyrsta leikinn gegn LA Lakers í úrslitaeinvígi NBA deildarinnar. Pierce meiddist á hné í þriðja leikhlutanum og þurfti að fara til búingsherbergja, en sneri aftur og átti stóran þátt í sigri sinna manna.

Mikið hefur verið rætt og ritað um meiðsli Pierce í bandarískum fjölmiðlum í dag. Menn eins og Phil Jackson, þjálfari Lakers, hafa dregið í efa að meiðsli Pierce séu alvarleg vegna þess hve fljótt hann sneri aftur til leiks.

Pierce sjálfur, sem og forráðamenn Boston Celtics, hafa tekið þá skrítnu ákvörðun að senda hann ekki með hnéð í myndatöku til að kanna meiðslin.

"Þetta gæti í raun verið verra en það virkar í fyrstu, en núna ætla ég bara að fá alla þá meðferð sem ég get fengið og vona að ég geti spilað í leik tvö," sagði Pierce í dag.

"Ég get gengið, ég get beygt hnéð, en ég finn sársauka inni í hnénu," sagði Pierce. "Þetta snýst bara um það hvort ég treysti mér til að spila eða ekki. Það eru bara tvær vikur eftir af tímabilinu - í mesta lagi sex leikir - hvað ætti ég svo sem að græða á því að fara í myndatöku," bætti hann við.

Miðherjinn Kendrick Perkins hjá Boston tognaði líka á ökkla í leiknum í gær og reiknað er með því að hann geti takmarkað spilað í næsta leik.

Phil Jackson sagðist hissa á dramatíkinni í kring um meiðsli Pierce, en endurkomu hans í leikinn í nótt var líkt við dramatíska endurkomu Willis Reed með New York Knicks í úrslitunum árið 1970. Jackson lék einmitt með New York það ár.

"Reed missti nú úr megnið af leiknum þegar hann meiddist og þurfti að fá hálfgerða hestasprautu til að geta spilað. Pierce var borinn af velli, en sneri aftur eftir örfáar mínútur og var ekki einu sinni haltur," sagði Jackson og gat sér til að Pierce hefði verið heimsóttur af kraftaverkapredikara í búingsherbergjum Boston.

Í myndbandinu frá nba.com sem fylgir fréttinni má sjá samantekt af hetjudáðum Pierce úr leiknum í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×