Fótbolti

Mun bera nafnið Lass aftan á treyjunni

Elvar Geir Magnússon skrifar
„Lass" í búningi Real Madrid í dag.
„Lass" í búningi Real Madrid í dag.

Spænska stórliðið Real Madrid kynnti Lassana Diarra til leiks í dag eftir að leikmaðurinn stóðst læknisskoðu. Real Madrid borgar Portsmouth 20 milljónir punda fyrir Diarra.

Þessi 23 ára franski miðjumaður hefur samþykkt samning til fjögurra og hálfs árs. Hann verður formlega orðinn leikmaður Real Madrid þegar félagaskiptaglugginn opnar 1. janúar.

„Ég tel mig hafa þau gæði sem til þarf. Ég þarf að aðlagast spænska boltanum og gera það sem fyrst. Ég hef spilað með stórliðum, er með reynslu frá franska landsliðinu og hef enn metnað til að bæta mig," sagði Diarra.

Diarra er oft líkt við Claude Makelele sem einnig lék með Real Madrid. „Við erum líkir að ýmsu leyti en Makelele er Makelele og ég er ég. Ég kem hingað sem Lassana Diarra og er ákveðinn í að sýna hvað ég get," sagði Diarra sem mun bera nafnið „Lass" aftan á treyju sinni hjá Real Madrid. Ástæðan er sú að í herbúðum Real Madrid er annar sem ber nafnið Diarra, Mahamadou Diarra.

Diarra hóf feril sinn hjá Le Havre en gekk til liðs við Chelsea 2005. Hann fór til Arsenal á lokadegi félagaskiptagluggans í ágúst 2007 en stoppaði stutt við og var kominn til Portsmouth fimm mánuðum síðar.

Tony Adams, knattspyrnustjóri Portsmouth, mun fá hverja einustu krónu af sölunni á Diarra til að kaupa fleirileikmenn. „Allar ákvarðanir hjá félaginu fara í gegnum mig og þegar Real Madrid bauð mikinn pening fyrir þennan leikmann kom ákvörðun sem ég þurfti að taka," sagði Adams.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×