Erlent

Kolkrabbi með griparma á við traktorsdekk

Óli Tynes skrifar

Vísindamenn á Nýja Sjálandi rannsaka nú stærsta kolkrabba sem veiðst hefur.

Það voru nýsjálenskir fiskimenn sem fengu skepnuna í net sín fyrir tilviljun þar sem þeir voru á veiðum undan norðurströnd Suðurheimskautslandsins. Þeir frystu hana og fluttu með sér í land.

Til þess að gefa hugmynd um stærð skepnunnar má geta þess að ef armar hennar yrðu skornir niður í kalamari hringi væru þeir á stærð við traktorsdekk.

Kolkrabbinn er um átta metra langur og vegur tæpt hálft tonn. Þetta er stærsti kolkrabbi sem vitað er til að hafi veiðst. Vísindamenn segja þó að þessar skepnur geti orðið allt að fjórtán metra langar.

Þær geta kafað niður á tveggja kílómetra dýpi og eru árásargjörn rándýr. Oft hafa sést á búrhvölum merki um risastórar sogskálar þeirra eftir bardaga í hafdjúpunum.

Að rannsókn lokinni er ætlunin að geyma kolkrabbann í formalíni og hafa hann til sýnis í sædýrasafni í höfuðborginni Wellington.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×