Sport

Klitschko valtaði yfir Rahman

Fádæma auðveldur sigur Klitschko sagði líklega meira um stöðu mála í þungavigtinni en hæfileika hans
Fádæma auðveldur sigur Klitschko sagði líklega meira um stöðu mála í þungavigtinni en hæfileika hans NordicPhotos/GettyImages

Úkraínumaðurinn Wladimir Klitschko gjörsigraði Bandaríkjamanninn Hasim Rahman í bardaga þeirra í Mannheim í Þýskalandi í gærkvöld. Hann heldur þar með í WBO og IBF beltin sín í þungavigt.

Bardaginn í gær var grátlega ójafn. Hinn 32 ára gamli Klitschko gjörsigraði Rahman með röð af eitruðum stungum sem tóku úr hann allan mátt. Bandaríkjamaðurinn stóð fljótlega á tréfótum og gat ekki með nokkru móti hreyft sig eða sótt á móti.

Klitschko sló Rahman fyrst í gólfið í fimmtu lotu og dómarinn stöðvaði bardagann í þeirri sjöttu.

Rahman sló í gegn árið 2001 þegar hann rotaði Lennox Lewis mjög óvænt í titilbardaga. Skemmst er frá því að segja að núna er ekki árið 2001.

Klitschko-bræðurnir Wladimir og Vitali bera höfuð og herðar yfir aðra hnefaleikara í þungavigtinni í dag, en þeir lofuðu móður sinni að mætast aldrei í hringnum og skipta því með sér þeim beltum sem í boði eru.

Þessi stórkostlega íþróttagrein má sannarlega muna fífil sinn fegurri og mikil vöntun er á nýjum og hungruðum stjörnum - ekki síst í þungavigtinni.



Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×