Fótbolti

Real hefur ekki unnið á Riazor síðan 1991

Svipurinn á Arjen Robben lýsir vel vonbrigðum Real á Riazor
Svipurinn á Arjen Robben lýsir vel vonbrigðum Real á Riazor NordicPhotos/GettyImages

Segja má að leiktíðin á Spáni hafi byrjað hörmulega fyrir stórveldin Barcelona og Real Madrid. Barcelona tapaði opnunarleik sínum í deildinni gegn Numancia á útivelli í gær 1-0 og ekki gekk betur hjá erkifjendum þeirra, meisturum Real Madrid.

Real menn hefðu eflaust kosið að byrja leiktíðina á flestum öðrum völlum en Riazor í La Coruna, en þar endurtók sagan sig þegar Real tapaði 2-1 fyrir Deportivo í lokaleiknum í gær.

Miguel Mista kom Deportivo á bragðið á 27. mínútu en Hollendingurinn Ruud van Nistelrooy jafnaði metin á 47. mínútu leiksins. Aðeins fimm mínútum síðar skoraði hinsvegar Alberto Lopo það sem reyndist vera sigurmark Depor í leiknum.

Hrakfarir Real Madrid á Riazor vellinum hafa verið með hreinum ólíkindum, en liðið hefur ekki unnið þar síðan það vann 3-0 sigur í viðureign liðanna árið 1991.

Síðan þá hafa liðin mæst 17 sinnum á Riazor og hefur Deportivo unnið tólf þeirra en fimm hefur lokið með jafntefli.

Aðeins Barcelona getur státað af öðrum eins árangri á heimavelli gegn Real Madrid í sögu félagsins, en Real vann ekki leik á Nou Camp á árunum 1984 til ársins 2002 - eða í 20 leiki í röð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×