Körfubolti

NBA í nótt: Miami vann í framlengdum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwyane Wade og Jamal Crawford ræða saman eftir leik.
Dwyane Wade og Jamal Crawford ræða saman eftir leik. Nordic Photos / Getty Images

Miami vann í nótt sigur á Golden State á útivelli í NBA-deildinni í körfubolta. Framlengja þurfti leikinn sem lauk með 130-129 sigri Miami. Þrír leikir fóru fram í deildinni í nótt.

Golden State var með leikinn í höndum sér bæði í lok venjulegs leiktíma og framlengingarinnar. Chris Quinn tókst að jafna metin fyrir Miami í lok framlengingarinnar með þriggja stiga körfu þegar sjö sekúndur voru eftir.

Michael Beasley náði svo að stela boltanum af Golden State í kjölfarið. Það var brotið á honum og hann setti annað vítið niður sem tryggði liðinu sigur.

Golden State var með frumkvæðið lengst af í leiknum en Miami náði að koma sér aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta. Í lokin var þó Golden State með tveggja stiga forystu en Udonis Haslem náði sóknarfrákasti á lokasekúndu leikhlutans og jafnaði metin á síðustu stundu.

Dwyane Wade skoraði 37 stig fyrir Miami, gaf þrettán stoðsendingar og tók fimm fráköst. Shawn Marion og Haslem komu næstir með 21 stig - Marion tók fimmtán fráköst og Haslem þrettán. Alls tóku leikmenn Miami tíu fleiri sóknarfráköst en Golden State - 21 gegn 11.

Jamal Crawford skoraði 30 stig fyrir Golden State og Corey Maggette 29.

Boston vann Orlando, 107-88, þar sem Paul Pierce skoraði 24 stig fyrir Boston og Ray Allen 21. Rajon Rondo var með sextán stig og tólf stoðsendingar og Kevin Garnettt fimmtán stig og níu fráköst.

Rashard Lewis skoraði 30 stig fyrir Orlando og Hedu Turkoglu nítján.

Charlotte vann Minnesota, 100-90. Jason Richardson skoraði 25 stig fyrir Charlotte og Emeka Okafor 24 auk þess sem hann tók tíu fráköst. Hjá Minnesota var Randy Foye stigahæstur með 23 stig. Mike Miller kom næstur með nítján stig og tíu fráköst.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×