Viðskipti innlent

Gengi bréfa í Moss Bros hrynur á mánuði

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs.
Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs.

Breska herrafataverslunin Moss Bros hefur ekki farið varhluta af svartsýni breskra fjárfesta og gremju hluthafa. Gengi bréfa í versluninni féll um rúm 10,7 prósent í dag, endaði í 27 pensum á hlut. Fyrir sléttum mánuði stóð gengið í 40,5 pensum á hlut.

Baugur, sem á 29 prósenta hlut í Moss Bros, hætti við að leggja fram yfirtökutilboð í verslunina upp á 42 pens á hlut seint í maí. Gengið hefur því fallið um tæp 36 prósent á rúmum mánuði.

Á sama tíma fyrir ári stóð gengið í 66 pensum á hlut. Þessu samkvæmt hefur það fallið um 60 prósent síðan þá.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, sagði ákvörðunina grundvallast á breytingum á hluthafalista verslunarinnar og andstöðu rótgróinna hluthafa, sem töldu tilboðið alltof lágt og endurspegla ekki raunvirði verslunarinnar. Þá hefur Rowland Gee, einn af ráðandi hluthöfum verslunarinnar, selt hluta af eignasafni sínu.

Moss Bros, sem tapaði 1,3 milljónum punda fyrir skatta og álögur, á síðasta ári, er á meðal dverganna á aðallista bresku kauphallarinnar. Hluthafar hafa óskað eftir því að félagið verði fært niður á AIM-hliðarmarkaðinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×