Erlent

Bílstjóri bin Ladens fær að skrifa Al Kæda bréf

Óli Tynes skrifar
Osama bin Laden.
Osama bin Laden.

Bílstjóri Osama bin Ladens hefur fengið leyfi dómstóls til þess að skrifa háttsettum Al Kæda foringjum í Gvantanamo fangabúðunum á Kúbu og biðja þá um að lýsa starfinu sem hann vann fyrir þá í Afganistan.

Salim Hamdan er fyrir herrétti, sakaður um að vera hryðjuverkamaður. Verjendur hans segja að þótt hann hafi ekið fyrir hryðjuverkamenn geri það ekki hann sjálfan að slíkum.

Þeir segja að Hamdan, sem er frá Jemen, sé aðeins fátækur verkamaður. Hann hafi gengið í hóp bílstjóra Al Kæda vegna þess að hann hafi þurft á laununum að halda.

Hann hafi hinsvegar aldrei gengið í samtökin né hafi haft hugmynd um árásaráætlanir þeirra.

Lögfræðingarnir báðu því um að hann fengi að skrifa foringjunum í Gvantanamo og biðja þá um starfslýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×