Erlent

Vilja neyða aðstoð upp á herforingjastjórn Burma

Óli Tynes skrifar
Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands.
Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands.

Frakkar hafa lagt til að alþjóðasamfélagið veiti þá aðstoð sem þarf í Burma, hvort sem herforingjastjórninni líkar betur eða verr.

Óttast er að um 60 þúsund manns hafi farist í fellibylnum sem gekk þar yfir um síðustu helgi. Stjórnvöld landsins tregðast enn við að hleypa hjálparstofnunum inn í landið.

Árið 2005 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar hugtakið "skylda til þess að vernda."

Í því felst viðurkenning á því að alþjóðasamfélaginu beri skylda til þess að vernda óbreytta borgara þar sem þeirra eigin ríkisstjórnir geta eða vilja það ekki. Jafnvel þótt sú íhlutun brjóti gegn sjálfstæði viðkomandi lands.

Þessa klausu vilja Frakkar nota til þess að grípa í taumana í Burma. Bernard Kouchner utanríkisráðherra Frakklands sagði að bæði Frakkar, Bretar og Indverjar hefðu herskip undan ströndum Burma þar sem ástandið væri hvað verst.

Hann sagði að það tæki ekki nema hálftíma fyrir franska herskipið og þyrlur þess að hefja hjálparstarf. Hann ímyndaði sér að það sama gilti um Breta og Indverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×