Sport

Serena vann Venus og er komin í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Serena Williams fagnar sigri í dag.
Serena Williams fagnar sigri í dag. Nordic Photos / AFP
Serena Williams varð í dag síðasti keppandinn til að komast í undanúrslit í einliðaleik kvenna á opna bandaríska meistaramótinu í tennis.

Hún bar sigurorð af systur sinni, Venus, í æsispennandi viðureign. Bæði settin vann hún í bráðabana, 7-6. Fyrra settið 8-6 og það síðara 9-7 í bráðabananum.

Hún mætir Danira Safina frá Rússlandi í undanúrslitum á morgun. Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Elena Dementieva frá Rússlandi og Serbinn Jelena Jankovic.

Það er því möguleiki á því að báðir keppendur í úrslitunum verði frá Rússlandi.

Jelena Jankovic er þó besti af þeim keppendum í undanúrslitunum samkvæmt styrkleikalista mótsins. Hún er í öðru sæti, Serena í fjórða, Dementieva í fimmta og Safina í sjötta.

Ana Ivanovic, sem er í fyrsta sæti, datt út strax í annarri umferð og sú sem er í þriðja sæti, Svetlana Kuznetsova frá Rússlandi, í þriðju umferð.

Venus hafði tvo möguleika í fyrra settinu að trygga sér sigur í settinu og átta í öðru settinu. Serena sýndi hins vegar mikla baráttu og tryggði sér á endanum sigur. Þetta er í tólfta sinn sem hún kemst í undanúrslit á stórmóti.

„Mér finnst eins og ég eigi skilið að fá verðlaun strax. En svo er víst ekki og verð ég að halda áfram í næstu umferð," sagði Serena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×