Viðskipti erlent

Olíuverð hækkar sökum veðurfars

Olíuborpallur.
Olíuborpallur.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu rauk upp um rúma tvo dali á tunnu í dag eftir að veðurfræðingar sögðu hætt við því að fellibylurinn Gústaf geti farið inn í Mexíkóflóa. Fimmtungur af olíuframleiðslu Bandaríkjamanna er við flóann og getur skerðing á vinnslunni af völdum veðurfars sett stórt skarð í heildarframleiðslu landsins, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar.

Inn í verðhækkunina spilar sömuleiðis vaxandi spenna í átökum á milli Rússa og Georgíumanna, að sögn Bloomberg.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í október, hefur nú hækkað um 2,27 dali á tunnu og stendur í 117,38 dölum. Verðið hefur hækkað um 63 prósent frá sama tíma í fyrra.

Verð á Brent-olíu hækkaði um slétta tvo dali, 1,8 prósent og stendur í 116,05 dölum á markaði í Lundúnum í Bretlandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×