Körfubolti

Erfiðara að hitta forsetann en spila til úrslita

Bush fékk áritaða treyju og bolta frá Celtics. Treyjan var númer 43 sem gefur til kynna að hann er 43. forseti Bandaríkjanna
Bush fékk áritaða treyju og bolta frá Celtics. Treyjan var númer 43 sem gefur til kynna að hann er 43. forseti Bandaríkjanna NordicPhotos/GettyImages

George Bush, forseti Bandaríkjanna, tók á móti NBA meisturum Boston Celtics í Hvíta Húsinu í gær. Þetta er árlegur viðburður þar sem meistaraliðin úr stærstu liðsíþróttum landsins fá tækifæri til að hitta forseta landsins.

Paul Pierce, leikmaður Boston sem valinn var verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna gegn Lakers í sumar, sagði það hafa tekið á taugarnar að hitta forsetann.

"Ég var mjög taugaóstyrkur og svitnaði í lófunum. Þetta tók meira á taugarnar en að spila úrslitaleikina," sagði framherjinn.

Celtics lagði Lakers 4-2 í úrslitunum í júní sl. þegar gömlu stórveldin mættust í úrslitum á ný. Boston og Los Angeles mættust oftar en einu sinni í úrslitarimmunni á níunda áratugnum.

Bush óskaði leikmönnum Celtics til hamingju með titilinn og sagði að ef liðið yrði meistari á ný næsta sumar eftir að hann hætti sem forseti - væri því þó velkomið að kíkja í heimsókn til sín til Texas.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×