Körfubolti

Reynslan hjá Kristrúnu kom þarna í ljós

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristrún Sigurjónsdóttir
Kristrún Sigurjónsdóttir Mynd/Anton

"Það er alltaf svekkjandi að tapa en kannski er það enn meira svekkjandi að tapa svona þegar maður er kominn inn í framlengingu í hausnum. Þetta var slagurinn um toppinn og hugsanlega höfðu Haukarnir þetta á reynslunni," sagði Ari Gunnarsson, þjálfari Hamars eftir þriggja stiga tap fyrir Haukum í toppslag Iceland Express deildar kvenna í kvöld.

Ari var þó ekki óánægður með sitt lið. "Ég er mjög stoltur af stelpunum og sérstaklega af því að þær komu til baka tvisvar sinnum í leiknum eftir að Haukarnir höfðu náð forskoti. Það þurfti að berja í þær trúna og það er það sem hefur verið að há liðinu á móti Keflavík og svo í fyrsta leikhluta í kvöld. Það er eins og þær hafi ekki nógu mikla trú á þessu," sagði Ari en Haukar náðu mest 15 stiga forskoti í 1. leikhlutanum og voru 28-15 yfir eftir hann.

Þegar 23 sekúndur voru eftir voru Haukar með boltann og tóku leikhlé. Hamar var 76-73 yfir en hvað lagði Ari upp í vörninni.

"Við erum þremur stigum yfir og ég bað þær um að gefa þeim ekki þriggja stiga skot. Þær náðu að loka á þriggja stiga skotið hjá Slavicu sem var búin að setja niður mörg stór skot til þessa í leik. Kristrún var ekki búin að hitta neitt en þarna kom reynslan hjá henni í ljós og hún kann að setja svona skot ofan í," sagði Ari en Kristrún Sigurjónsdóttir jafnaði leikinn þegar 12 sekúndur voru eftir.

Ari hefur engar áhyggjur þrátt fyrir að Hamarsliðið hafi tapað tveimur leikjum í röð.

"Þetta þýðir ekki neitt fyrir mitt lið. Það eru allir sárir núna og eflaust eru einhverjir að leita að einhverjum sökudólgi. Ég ríf þær upp af rassgatinu strax á fyrstu æfingu á morgun og fer að undirbúa þær fyrir næsta leik," sagði Ari en næsti leikur Hamars er gegn Snæfelli í Stykkishólmi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×