Fótbolti

Ronaldinho hefði átt að fara fyrr

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ronaldinho í leik með Barcelona.
Ronaldinho í leik með Barcelona. Nordic Photos / AFP

Joan Laporta, forseti Barcelona, segir að það hafi verið mistök að halda Ronaldinho í röðum Barcelona eins lengi og raun bar vitni.

Ronaldinho var mikið gagnrýndur síðustu tvö árin sín hjá Barcelona og sagði Laporta í viðtali við Marca á Spáni að hann hafi talið að hann ætti alltaf meira inni. Að hann væri enn hluti af lausninni en ekki af vandamálinu.

Laporta sagði að hlutirnir hefðu breyst eftir að félagið varð Evrópumeistari vorið 2006.

„Árið eftir að við urðum meistarar og unnum Meistaradeildina sáum við merki um að leikmenn væru farnir að slaka á. En við vorum nálægt því að verja meistaratitilinn og ákváðum að halda sumum leikmönnum í þakklætisskyni."

„En við vitum núna hvað gerðist. Ég hefði ekki tekið sömu ákvörðun miðað við hvað ég veit í dag. En Ronaldinho var ávallt jákvæður þegar hann var hjá okkur og sagðist aldrei vilja fara annað. Hann sagði að hann vildi verða sá besti aftur og þess vegna ákváðum við að halda honum."

Laporta sagði einnig að hann hefði íhugað að fá Johan Cruyff til að taka við Frank Rijkaard ef sá síðarnefndi hefði ekki klárað síðasta tímabil. Pep Guardiola tók við starfi hans nú í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×