Sport

Bolt bætti heimsmeitið í 100 m hlaupi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Usain Bolt spretthlaupari.
Usain Bolt spretthlaupari. Nordic Photos / AFP
Spretthlauparinn Usain Bolt frá Jamaíku bætti í dag heimsmetið í 100 metra hlaupi um tvo hundraðshluta úr sekúndu er hann hljóp á 9,72 sekúndum í New York í dag.

Bolt er 21 árs og vann silfurverðlaun í 200 m hlaupi á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í fyrra. Í dag bætti hann met landa síns, Asafa Powell.

„Ég ætlaði mér ekki beint að bæta heimsmetið en met eru til þess að slá þau. Ég gerði því mitt besta í dag."

Bolt hefur hins vegar alltaf sagt að hann sé fyrst og fremst 200 m hlaupari og fyrr í vikunni sagðist hann enn óviss um hvort hann ætlaði að keppa í 100 m hlaupi í úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana í heimalandi sínu.

Hann hefur nú hins vegar skipt um skoðun.

„Ég ætla að keppa í 100 m hlaupi í Peking. Ég þarf að einbeita mér núna og vinna meira í 200 m hlaupinu því ég hef ekki sinnt því mikið."

Bolt sagði einnig að metið væri ekki eins mikils virði og heims- eða Ólympíumeistaratitill.

„Ef einhver hleypur hraðar en ég á morgun er ég ekki lengur fljótasti maður heims. En ef maður er Ólympíumeistari þurfa allir aðrir að bíða í fjögur ár til að ná titlinum af manni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×