Fótbolti

Eiður í leikmannahópi Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nær Eiður Smári að skora á morgun?
Nær Eiður Smári að skora á morgun? Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen hefur náð að hrista af sér meiðsli og er í leikmannahópi Barcelona sem mætir Real Murcia í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar á morgun.

Þetta gefur Ólafi Jóhannessyni landsliðsþjálfara þá von að Eiður Smári verði klár í slaginn þegar Ísland mætir Wales í vináttulandsleik síðar í mánuðinum.

Eiður var í byrjunarliði Börsunga gegn Real Madrid fyrr í mánuðinum en þurfti að fara snemma af velli vegna meiðslanna. Hann missti síðan af leik liðsins um síðustu helgi.

Leikurinn á morgun verður sá síðasti undir stjórn Frank Rijkaard en Pep Guardiola tekur við honum nú í sumar. Óvíst er um framtíð margra leikmanna Barcelona og er Eiður Smári einn þeirra sem hefur verið sagður á leið frá félaginu.

Edmilson tekur út leikbann og þeir Deco, Yaya Toure og Rafa Marquez eiga allir við meiðsli að stríða. Xavi og Gianluca Zambrotta eru einnig í hópnum en Zambrotta hefur átt við meiðsli að stríða og Xavi tók út leikbann í síðasta leik.

Hópur Barcelona: Valdés, Puyol, Xavi, Eiður Smári, Eto'o, Zambrotta, Pinto, Henrio, Giovani, Ezquerro, Messi, Thuram, Abidal, Oleguer, Bojan, Rueda og Fali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×