Stjórnvöld leggist á árar með bönkunum Óli Kristján Ármannsson skrifar 20. febrúar 2008 00:01 Vandi bankanna sem endurspeglast í gríðarháu skuldatryggingarálagi á bréf þeirra er grafalvarlegur. Deginum ljósara er að íslensku bankarnir eru ekki samkeppnishæfir við erlenda banka til lengri tíma litið meðan kostnaður þeirra við fjármögnun er fimm sinnum meiri en hinna. Eftir stendur svo spurningin um hvað veldur. Íslandsálagið, það er að segja mismunurinn á kostnaði við fjármögnun íslenskra banka og erlendra sem ekki verður útskýrður með öðru en landfræðilegri legu þeirra, er ekki sprottið upp úr einhverju tómarúmi heldur er það mat erlendra sérfræðinga á meiri áhættu við kaup á skuldabréfum íslensku bankanna en annarra banka. En hvað getur valdið þessu mati? Arðsemi íslensku bankanna er mikil, vöxtur þeirra og rekstur til fyrirmyndar og þeir standast með glans álagspróf þau sem Fjármálaeftirlitið leggur þeim á herðar. Þá eru ekki augljósar ástæður í rekstrarumhverfi þeirra hér sem ættu að gera þá hættumeiri fjárfestingu en aðra banka. Þeir starfa í opnu vestrænu lýðræðisríki þar sem allt regluverk og umgjörð til fyrirtækjarekstrar er eins og best verður á kosið. Þannig er þetta að minnsta kosti á yfirborðinu. Í nýlegri skýrslu alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody‘s er hreyft við spurningunni um hvort íslensku bankarnir séu að vaxa þjóð sinni yfir höfuð. Verði þeir mikið stærri og þar af leiðandi með meiri skuldbindingar utan landsteinanna í erlendum myntum er óvíst hvort þeir hafa nægt bakland hér heima fyrir í krónuútgáfu Seðlabankans og með ábyrgðum ríkisins. Því kemur verulega á óvart svar Geirs Haarde forsætisráðherra eftir Viðskiptaþing í síðustu viku að hann telji ekki raunhæfa leið að reyna samninga við Seðlabanka Evrópu um stuðning eða bakland vegna skuldbindinga íslenskra fyrirtækja í evrum. Þá er því ekki að neita að þjóðfélagsbreytingar síðustu ára og breytt valdahlutföll í viðskiptalífinu urðu til þess að sums staðar á sviði stjórnmála duttu menn í þá gryfju að draga menn í dilka eftir því hvort þeir væru æskilegir eða óæskilegir viðskiptajöfrar. Í því ljósi er sérstaklega óheppilegt að vangaveltur skuli vera uppi um hvort Seðlabanki Íslands vilji leggja stein í götu fjármálafyrirtækja sem kjósa aðra starfrækslu- eða kauphallarmynt en krónuna. Þá hjálpar ekki til að miðað við þann stýrivaxtaferil sem Seðlabankinn styðst enn við virðist sem ætlun bankans sé að keyra hér hagkerfið niður í harkalega lendingu. Vegna fjármálaóróleika og lausafjárþurrðar eru nú uppi aðstæður sem gera þetta kleift, en vandséð er að þessi stefna sé hagkvæm, enda kostnaður þjóðfélagsins gríðarlegur af djúpri niðursveiflu í efnahagslífinu. Landið hefur verið yfir verðbólgumarkmiði bankans nánast allar götur síðan það var tekið upp og skipta þá varla máli nokkrir mánuðir til eða frá ef forða má slíkum þrengingum. Spurning er hvort erlendir bankar sem kaupa skuldabréf sjái slík merki óróa á sviði stjórnmálanna eða vísbendingar í viðhorfi ráðamanna til íslensku bankanna og almennrar þjóðfélagsþróunar að réttlæta kunni Íslandsálagið svonefnda. Fundur forsvarsmanna fjármálafyrirtækja með ríkisstjórn undir lok síðustu viku er með jákvæðari fregnum síðustu daga og vonandi til marks um að á ríkisbænum séu menn að vakna til vitundar um mikilvægi þess að leggjast á árar með bönkunum, núna þegar á móti blæs. Þá dugar ekki heldur að vísa fyrir fram frá sér möguleikum í samstarfi eða mögulegum samningum við stofnanir á borð við Seðlabanka Evrópu, kunni þeir að verða til að létta íslenskum fyrirtækjum róðurinn og hjálpa til við að aflétta Íslandsálagi bankanna. Stjórnvöld þurfa að sýna í verki að þau séu í liði með þeim fyrirtækjum sem ætlunin er að verði hér grunnurinn að áframhaldandi hagsæld. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Vandi bankanna sem endurspeglast í gríðarháu skuldatryggingarálagi á bréf þeirra er grafalvarlegur. Deginum ljósara er að íslensku bankarnir eru ekki samkeppnishæfir við erlenda banka til lengri tíma litið meðan kostnaður þeirra við fjármögnun er fimm sinnum meiri en hinna. Eftir stendur svo spurningin um hvað veldur. Íslandsálagið, það er að segja mismunurinn á kostnaði við fjármögnun íslenskra banka og erlendra sem ekki verður útskýrður með öðru en landfræðilegri legu þeirra, er ekki sprottið upp úr einhverju tómarúmi heldur er það mat erlendra sérfræðinga á meiri áhættu við kaup á skuldabréfum íslensku bankanna en annarra banka. En hvað getur valdið þessu mati? Arðsemi íslensku bankanna er mikil, vöxtur þeirra og rekstur til fyrirmyndar og þeir standast með glans álagspróf þau sem Fjármálaeftirlitið leggur þeim á herðar. Þá eru ekki augljósar ástæður í rekstrarumhverfi þeirra hér sem ættu að gera þá hættumeiri fjárfestingu en aðra banka. Þeir starfa í opnu vestrænu lýðræðisríki þar sem allt regluverk og umgjörð til fyrirtækjarekstrar er eins og best verður á kosið. Þannig er þetta að minnsta kosti á yfirborðinu. Í nýlegri skýrslu alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody‘s er hreyft við spurningunni um hvort íslensku bankarnir séu að vaxa þjóð sinni yfir höfuð. Verði þeir mikið stærri og þar af leiðandi með meiri skuldbindingar utan landsteinanna í erlendum myntum er óvíst hvort þeir hafa nægt bakland hér heima fyrir í krónuútgáfu Seðlabankans og með ábyrgðum ríkisins. Því kemur verulega á óvart svar Geirs Haarde forsætisráðherra eftir Viðskiptaþing í síðustu viku að hann telji ekki raunhæfa leið að reyna samninga við Seðlabanka Evrópu um stuðning eða bakland vegna skuldbindinga íslenskra fyrirtækja í evrum. Þá er því ekki að neita að þjóðfélagsbreytingar síðustu ára og breytt valdahlutföll í viðskiptalífinu urðu til þess að sums staðar á sviði stjórnmála duttu menn í þá gryfju að draga menn í dilka eftir því hvort þeir væru æskilegir eða óæskilegir viðskiptajöfrar. Í því ljósi er sérstaklega óheppilegt að vangaveltur skuli vera uppi um hvort Seðlabanki Íslands vilji leggja stein í götu fjármálafyrirtækja sem kjósa aðra starfrækslu- eða kauphallarmynt en krónuna. Þá hjálpar ekki til að miðað við þann stýrivaxtaferil sem Seðlabankinn styðst enn við virðist sem ætlun bankans sé að keyra hér hagkerfið niður í harkalega lendingu. Vegna fjármálaóróleika og lausafjárþurrðar eru nú uppi aðstæður sem gera þetta kleift, en vandséð er að þessi stefna sé hagkvæm, enda kostnaður þjóðfélagsins gríðarlegur af djúpri niðursveiflu í efnahagslífinu. Landið hefur verið yfir verðbólgumarkmiði bankans nánast allar götur síðan það var tekið upp og skipta þá varla máli nokkrir mánuðir til eða frá ef forða má slíkum þrengingum. Spurning er hvort erlendir bankar sem kaupa skuldabréf sjái slík merki óróa á sviði stjórnmálanna eða vísbendingar í viðhorfi ráðamanna til íslensku bankanna og almennrar þjóðfélagsþróunar að réttlæta kunni Íslandsálagið svonefnda. Fundur forsvarsmanna fjármálafyrirtækja með ríkisstjórn undir lok síðustu viku er með jákvæðari fregnum síðustu daga og vonandi til marks um að á ríkisbænum séu menn að vakna til vitundar um mikilvægi þess að leggjast á árar með bönkunum, núna þegar á móti blæs. Þá dugar ekki heldur að vísa fyrir fram frá sér möguleikum í samstarfi eða mögulegum samningum við stofnanir á borð við Seðlabanka Evrópu, kunni þeir að verða til að létta íslenskum fyrirtækjum róðurinn og hjálpa til við að aflétta Íslandsálagi bankanna. Stjórnvöld þurfa að sýna í verki að þau séu í liði með þeim fyrirtækjum sem ætlunin er að verði hér grunnurinn að áframhaldandi hagsæld.