Fótbolti

Grétar Rafn og Bjarni Þór mættust í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andy Johnson skorar hér fyrsta mark Everton framhjá Grétari Rafni Steinssyni.
Andy Johnson skorar hér fyrsta mark Everton framhjá Grétari Rafni Steinssyni. Nordic Photos / Getty Images

Grétar Rafn Steinsson og Bjarni Þór Viðarsson komu báðir við sögu í leik AZ Alkmaar og Everton í UEFA-bikarkeppninni í kvöld.

Grétar Rafn lék allan leikinn fyrir AZ en Bjarni Þór kom inn á sem varamaður í sínum fyrsta leik með aðalliði Everton á 69. mínútu.

Báðir komust vel frá sínu en það var Everton sem vann leikinn, 3-2. Grétar Rafn átti þátt í öðru marki AZ.

Andy Johnson kom gestunum frá Liverpool yfir strax á annarri mínútu en Graziano Pelle jafnaði metin á sextándu mínútu.

Aftur komst Everton yfir á 43. mínútu með marki Philip Jagielka en á 65. mínútu jafnaði Kew Jaliens metin fyrir AZ.

Það var svo James Vaughan sem var hetja Everton í leiknum en hann kom inn á sem varamaður á sömu mínútu og Bjarni Þór. Hann skoraði sigurmark leiksins á 79. mínútu eftir fremur vafasaman varnarleik hjá liði AZ.

Everton vann alla fjóra leiki sína í A-riðli UEFA-bikarkeppninnar en riðlakeppninni lauk í kvöld. Liðið komst því áfram í 32-liða úrslit keppninnar ásamt Zenit St. Pétursborg og Nürnberg.

AZ Alkmaar situr hins vegar eftir í fjórða sæti riðilsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×