Fótbolti

Sex stuðningsmenn United handteknir í Róm

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn United á leiknum í Róm í gær.
Stuðningsmenn United á leiknum í Róm í gær. Nordic Photos / Getty Images

Sex Bretar voru í gær handteknir í Róm í tengslum við hópslagsmál fyrir leik Roma og Manchester United í Meistaradeild Evrópu í gær.

Fimm stuðningsmenn United hlutu stungusár og voru fluttir á sjúkrahús en enginn hlaut alvarlega áverka.

Fjórir af þeim sex handteknu voru kærðir fyrir að trufla starf lögregluþjóna við skyldustörf þeirra en hinum tveimur var sleppt án kæru.

Að sögn breska sendiráðsins í Róm urðu engin frekari ólæti eftir að leiknum lauk en liðin skildu jöfn, 1-1.

Síðast þegar liðin mættust í apríl síðastliðnum varð að fara með ellefu áhorfendur á sjúkrahús eftir að þeir urðu fyrir barðinu á óeirðarlögreglu á leikvanginum. Þrír stuðningsmenn Manchester United hlutu einnig stungusár fyrir utan leikvanginn.

Átök brutust einnig út fyrir utan Old Trafford er liðin mættust viku síðar og voru þá 21 handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×