Sport

Barry Bonds segist sýkn saka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Barry Bonds mætir fyrir rétt í dag.
Barry Bonds mætir fyrir rétt í dag. Nordic Photos / Getty Images

Einhver frægasti hafnaboltaspilari Bandaríkjanna, Barry Bonds, hefur lýst yfir sakleysi sínu fyrir rétti vestan hafs.

Bonds er gefið að sök að hafa framið meinsæri og hindrað framgang réttvísinnar þegar rannsókn fór fram á meintri steranotkun hans.

Saksóknaraðilar vilja meina að Bonds hafi ekki sagt rétt frá árið 2003 þegar hann sagðist ekki nota ólögleg lyf til að bæta frammistöðu sína. Bonds var eiðsvarinn þegar hann hélt þessu fram.

Því er einnig haldið fram að hann hafi áður notað steralyf frá bandaríska fyrirtækinu Balco sem staðsett er í San Francisco.

Balco er sama fyrirtæki og framleiddi steralyfin sem Marion Jones játaði í haust að hafa notað.

Í september bætti Bonds eitt eftirsóknasta met í bandarískum íþróttum er hann sló sitt 755. heimahafnarhögg á ferlinum.

En í stað þess að hann væri hylltur af löndum sínum var hann í flestum tilvikum litinn hornauga þar sem það er almennt talið að hann hafi á undanförnum árum notað stera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×