Gæði kennslu og gæði náms 5. desember 2007 11:12 Íslenskir skólakrakkar skora heldur lágt á alþjóðlega prófinu þessa dagana. Þeir eru fyrir neðan meðaltal OECD-ríkjanna. Það er náttúrlega ekki í lagi. Hvað veldur? Ég held að svarið búi í kennsluháttunum. Þegar ég var pjakkur í Barnaskóla Íslands á brekkubrúninni á Akureyri upp úr miðri síðustu öld bjó ég við þau forréttindi að hafa sama kennarann frá því ég stillti mér upp í röðina í 1. bekk og allt þar til ég hélt til efra náms í Gagnfræðaskólanum litlu ofar á brekkunni. Áslaug Axelsdóttir var minn harði og einarði kennari. Hún var foringinn. Henni var hlýtt. Hún kenndi okkur allt sem að kjafti kom. Einna best tókst henni upp í íslensku, sögu og landafræði. Það fór enda svo að það urðu mín bestu fög. Ég held að það sé hægt að setja jafnaðarmerki á milli kennslugæða og námsárangurs. Eftir því sem kennarinn er færari í að miðla vitinu því klárari verða krakkarnir. Þetta eru ekki flókin vísindi. Bernharð Haraldsson tók við mér í Gagganum, harður húsbóndi sem barði í okkur lærdóminn af sanngjörnu miskunnarleysi. Hann var áberandi bestur í landafræði. Einhverra hluta vegna hef ég æ síðar haft óbilandi áhuga á landafræði - og er nánast sjúkur í landakort, örnefni og, ef því er að skipta, jarðfræði og jarðsögu. Gísli Jónsson og síðar Sverrir Páll Erlendsson og Valdimar Gunnarsson tóku við mér í Menntaskólanum á Akureyri; slíkir yfirburða kennarar í íslensku og bókmenntum að ég hef aldrei verið samur maður á eftir. Þeir efldu vitið, glæddu áhugann og hrifu mig með sér. Gunnar Frímannsson var félagsfræðikennarinn minn í MA; einnig slíkur afburðakennari að ég hef alla tíð haft ódrepandi áhuga á samfélaginu, pólitík, skoðanaskiptum og fjölmiðlun. Þetta er lykilfólk í lífi mínu. Ég held það sé ekki tilviljun að ég lagði fyrir mig blaðamennsku og ritstörf. Þetta er minn námsgrunnur. Ég er bestur í því sem kennararnir voru bestir í. Þetta segir mér eitt: Við eigum að auka gæði kennslunnar, efla kennaranámið, hefja það lóðrétt upp úr meðalmennskunni; tryggja skólunum framúrskarandi, áhugasama og vel menntaða kennara - á góðum launum. Námsárangurinn eykst sem þessu nemur. Góðir kennarar eru jafn áhrifaríkir og góðir foreldrar. Það má vart á milli sjá hvorir gera börnum meira gagn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, er á réttri leið. Hún býr örugglega að sömu reynslu og ég. Góð kennsla gyllir hugann. Hún er bjargið sem grunnur samfélagsins verður að standa á. Hér botnar Einar Ben mitt erindi: Vilji er allt sem þarf. -SER. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mannamál Sigmundar Ernis Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Íslenskir skólakrakkar skora heldur lágt á alþjóðlega prófinu þessa dagana. Þeir eru fyrir neðan meðaltal OECD-ríkjanna. Það er náttúrlega ekki í lagi. Hvað veldur? Ég held að svarið búi í kennsluháttunum. Þegar ég var pjakkur í Barnaskóla Íslands á brekkubrúninni á Akureyri upp úr miðri síðustu öld bjó ég við þau forréttindi að hafa sama kennarann frá því ég stillti mér upp í röðina í 1. bekk og allt þar til ég hélt til efra náms í Gagnfræðaskólanum litlu ofar á brekkunni. Áslaug Axelsdóttir var minn harði og einarði kennari. Hún var foringinn. Henni var hlýtt. Hún kenndi okkur allt sem að kjafti kom. Einna best tókst henni upp í íslensku, sögu og landafræði. Það fór enda svo að það urðu mín bestu fög. Ég held að það sé hægt að setja jafnaðarmerki á milli kennslugæða og námsárangurs. Eftir því sem kennarinn er færari í að miðla vitinu því klárari verða krakkarnir. Þetta eru ekki flókin vísindi. Bernharð Haraldsson tók við mér í Gagganum, harður húsbóndi sem barði í okkur lærdóminn af sanngjörnu miskunnarleysi. Hann var áberandi bestur í landafræði. Einhverra hluta vegna hef ég æ síðar haft óbilandi áhuga á landafræði - og er nánast sjúkur í landakort, örnefni og, ef því er að skipta, jarðfræði og jarðsögu. Gísli Jónsson og síðar Sverrir Páll Erlendsson og Valdimar Gunnarsson tóku við mér í Menntaskólanum á Akureyri; slíkir yfirburða kennarar í íslensku og bókmenntum að ég hef aldrei verið samur maður á eftir. Þeir efldu vitið, glæddu áhugann og hrifu mig með sér. Gunnar Frímannsson var félagsfræðikennarinn minn í MA; einnig slíkur afburðakennari að ég hef alla tíð haft ódrepandi áhuga á samfélaginu, pólitík, skoðanaskiptum og fjölmiðlun. Þetta er lykilfólk í lífi mínu. Ég held það sé ekki tilviljun að ég lagði fyrir mig blaðamennsku og ritstörf. Þetta er minn námsgrunnur. Ég er bestur í því sem kennararnir voru bestir í. Þetta segir mér eitt: Við eigum að auka gæði kennslunnar, efla kennaranámið, hefja það lóðrétt upp úr meðalmennskunni; tryggja skólunum framúrskarandi, áhugasama og vel menntaða kennara - á góðum launum. Námsárangurinn eykst sem þessu nemur. Góðir kennarar eru jafn áhrifaríkir og góðir foreldrar. Það má vart á milli sjá hvorir gera börnum meira gagn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, er á réttri leið. Hún býr örugglega að sömu reynslu og ég. Góð kennsla gyllir hugann. Hún er bjargið sem grunnur samfélagsins verður að standa á. Hér botnar Einar Ben mitt erindi: Vilji er allt sem þarf. -SER.
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun