Körfubolti

NBA í nótt: Ellis batt enda á sigurgöngu Phoenix

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Monta Ellis fór á kostum í nótt með Golden State. Hér kemur Steve Nash engum vörnum við.
Monta Ellis fór á kostum í nótt með Golden State. Hér kemur Steve Nash engum vörnum við. Nordic Photos / Getty Images

Monta Ellis gerði sér lítið fyrir og skoraði fimmtán stig í röð undir lok leiks Golden State og Phoenix og tryggði þar með fyrrnefnda liðinu sigur í leiknum, 129-114.

Phoenix hafði unnið síðustu átta leiki sína í röð en Golden State fór gríðarlega mikinn í fyrri hálfleik og skoraði þá 72 stig gegn 63 hjá Phoenix. Golden State skoraði til að mynda 45 stig í fyrsta leikhluta og lagði þar með grunninn að sigri liðsins.

Phoenix náði aldrei að jafna leikinn eftir þetta og sigur Golden State var nokkuð öruggur. Phoenix náði reyndar að minnka muninn í níu stig þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum en þá tók Ellis til sinna mála.

Ellis skoraði 31 stig í eliknum en Stephen Jackson var stigahæstur hjá Golden State með 32 stig. Baron Davis var með 28 stig og tíu fráköst.

Hjá Phoenix var Steve Nash stigahæstur með 23 stig og þrettán stoðsendingar og Shawn Marion var með tíu stig og fjórtán fráköst.

San Antonio Spurs töpuðu einnig í nótt eftir fimm sigurleiki í röð. Það var Sacramento Kings sem batt enda á sigurgöngu liðsins með góðum sigri, 112-99.

Beno Udrih var með 27 stig í leiknum en stigahæstur hjá Spurs var Tim Duncan með fimmtán stig.

Þá tapaði enn eina stórveldið, Dallas Mavericks, sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu er liðið tapaði fyrir Washington Wizards, 110-98.

Caron Butler var með 35 stig fyrir Washington og Antawn Jamison 27. Dirk Nowitzky var með 31 stig fyrir Dallas.

Stephon Marbury fór á kostum þegar New York Knicks vann Utah Jazz í nótt, 103-109. Hann skoraði 28 stig og Zach Randolph var með 25 stig og fjórtán fráköst. Hjá Utah var Carlos Boozer stigahæstur með 30 stig.

Minnesota Timberwolves vann aðeins sinn annan sigur á tímabilinu er liðið vann New Orleans Hornets, 103-94. Marko Jaric var með 21 stig fyrir Minnesota og Sebastian Telfair 20. Chris Paul var með 31 stig hjá New Orleans.

Að síðustu skoraði Tracy McGrady 36 stig fyrir Houston sem vann LA Clippers, 88-71, á útivelli. McGrady skoraði nítján stig í fjórða leikhluta en Yao Ming var næst stigahæstur með fjórtán stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×