Sport

Lengi lifir í gömlum glæðum

Federer þurfti að sætta sig við tap gegn Sampras í nótt
Federer þurfti að sætta sig við tap gegn Sampras í nótt NordicPhotos/GettyImages

Tennisgoðsagnirnar Pete Sampras og Roger Federer mættust í nótt í þriðja og síðasta æfingaleiknum á kynningarherferð sinni um Asíu. Það var gamli refurinn Sampras sem hafði betur í slag þeirra í nótt eftir að besti tennisleikari heims hafði unnið fyrstu tvo.

Síðasta viðureign þeirra félaga fór fram í Macau en áður höfðu þeir tekist á í Seul þar sem Federer vann 6-4 og 6-3 og síðar í Kuala Lumpur þar sem hann vann aftur en naumlega 7-6 (8-6) og 7-6 (7-5).

Sampras vann viðureignina í nótt 7-6 (8-6) og 6-4. "Þetta var einn fyrir gamla manninn," sagði Pete Sampras, sem lagði spaðann á hilluna fyrir fimm árum síðan.

Pete Sampras sigraði á sínum tíma á 14 slemmumótum en hinn 26 ára gamli Federer stefnir óðfluga að því að slá það met og er búinn að vinna 12 slík á ótrúlegum ferli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×