Körfubolti

NBA í nótt: Dallas vann meistarana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Josh Howard kemst hér framhjá Tim Duncan.
Josh Howard kemst hér framhjá Tim Duncan. Nordic Photos / Getty Images

Tveir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt. Dallas vann San Antonio og Phoenix bar sigurorð af Chicago Bulls.

Skelfilegur fyrsti leikhluti varð San Antonio að falli gegn Dallas. Josh Howard fór mikinn í liði Dallas í leikhlutanum og var maðurinn á bak við tvo góða spretti hjá liðinu, 17-1 annars vegar og 11-0 hins vegar.

Lokatölur voru 105-92 en San Antonio náði aldrei að ógna forskoti Dallas að einhverju ráði.

Manu Ginobili var einu sinni sem oftar stigahæstir leikmaður San Antonio með 25 stig. Hann tók einnig níu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Tim Duncan var með 24 stig en Tony Parker einungis sjö. Hann hitti aðeins úr einu skoti sínu af ellefu en gaf reyndar átta stoðsendingar.

Allt Dallas-liðið var að leika vel í nótt og var Howard stigahæstur með 23 stig. Devin Harris og Jason Terry voru með átján stig hvor og Dirk Nowitzky sautján.

Þetta var annar tapleikur San Antonio á leiktíðinni og sjötti sigurleikur Dallas. Alls eru nú fjögur lið á Vesturströndinni sem eru með 75% sigurhlutfall eða betra.

Grant Hill var öflugur í nótt.Nordic Photos / Getty Images

Eitt þeirra er Phoenix sem vann tíu stiga sigur á Chicago Bulls í nótt, 112-102. Leandro Barbosa var stigahæstur hjá Phoenix með 25 stig og hitti gríðarlega vel, þar af úr fimm af sjö þriggja stiga tilraunum sínum.

Phoenix náði að sigla fram úr Chicago í síðasta leikhlutanum en staðan var jöfn þegar þriðja leikhluta lauk, 75-75.

Shawn Marion var öflugur á lokasprettinum og skoraði ellefu af sínu 21 stigi í lokaleikhlutanum. Boris Diaw kom svo inn í liðið þegar Amare Stoudamire lenti í miklum villuvandræðum í lokin og skilaði sínu er hann skoraði sjö stig.

Grant Hill skoraði 24 stig fyrir Phoenix í nótt en Steve Nash var með tíu stig og fimmtán stoðsendingar.

Hjá Chicago var Ben Gordon atkvæðamikill með 24 stig og Luol Deng var með 23 stig og níu fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×