Erlent

Aðeins Írar fá þjóðaratkvæðagreiðslu

Guðjón Helgason skrifar

Aðeins Írar fá að greiða atkvæði um nýjan sáttmála Evrópusambandsins sem samþykktur var í nótt og kemur í stað umdeildrar stjórnarskrár. Ekki þarf að bera hann undir þjóðaratkvæði í öðrum ríkjum.

Margir stjórnmálaskýrendur segja að verið sé að lauma útvatnaðri stjórnarskrá - sem Hollendingar og Frakkar höfnuðu 2005 - bakdyramegin inn í ESB. Írar fá að segja sitt áliti á nýja samkomulaginu í þjóðaratkvæðagreiðslu - það er bundið í lög. Í mörgum hinna aðildarríkjanna tuttugu og sex er þrýst á um atkvæðagreiðslu - sér í lagi í Bretlandi - en flest ríkin vilja forðast vandræðalega og erfiða niðurstöðu líkt og fyrir um þremur árum.

Sáttmálinn var samþykktur laust eftir miðnætti í nótt og batt enda á einhvern erfiðasta kafla í sögu Evrópusamstarfsins.

Samkvæmt nýja sáttmálanum er skiplagi stjórnkerfis ESB breytt nokkuð og ákvarðanatökuferli einnig. Stærri ríkin fá aukið valdi en smærri ríki geta þó nokkur saman tafið ákvarðanatökuferli. Fallið er frá hugmyndum um eins konar Bandaríki Evrópu sem var að finna í stjórnarskrárdrögunum umdeildu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir þetta mikilvægt skref í stækkun ESB. Sambandið sé nú aftur starfhæft og geti einbeitt sér að því sem skipti máli fyrir framvindu vísinda og samfélagsins í heild.

Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, segir Frakka fara þess á leit við þing landsins að það staðfesti sáttmálann og hann voni að það gerist sem fyrst. Helst í desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×