Fótbolti

Milan bregst hart við banni Dida

Dida lét bera sig af velli eftir kinnhestinn
Dida lét bera sig af velli eftir kinnhestinn AFP

Forráðamenn AC Milan eru reiðir yfir ákvörðun Knattspyrnusambands Evrópu um að sekta Celtic um aðeins 12,500 pund vegna uppákomunnar í leik liðanna í Meistaradeildinni á meðan Dida markvörður hefur verið settur í tveggja leikja bann fyrir leikaraskap.

Celtic var dæmt til að greiða sekt fyrir að missa stuðningsmann inn á völlinn, en hann veittist að Dida og danglaði í hann um leið og hann hljóp af velli. Dida ýkti atvikið vel og lét bera sig af velli eins og hann hefði verið skotinn með haglabyssu.

Celtic ætlar ekki að áfrýja þessari niðurstöðu enda eru allir á einu máli um að skoska félagið hafi sloppið ótrúlega vel frá þessu leiðinlega atviki. Ítalirnir eru hinsvegar mjög ósáttir við bannið sem Dida fær í kjölfarið.

"Þessi niðurstaða er fáránleg og stenst engin rök. Ég hef ekkert á móti Celtic en ég er bara að reyna að átta mig á því hvað mönnum gengur til hérna þegar maður skoðar annars vegar atburðinn og hinsvegar afleiðingar sem hann getur haft í för með sér," sagði lögmaður ítalska félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×